Lexíur síðustu mánaða

2 minute read

Það hefur verið lærdómsríkt að vinna sem vörustjóri, bæði upp á að fá innsýn inn í breiðari heim vöruþróunar - sem snýst ekki bara um tækni, og að finna hvernig vinnu ég hef ástríðu fyrir.

Á sama tíma finn ég að ég sakna þess að vera nær tækninni og vinna náið með þeim sem þróa hana. Það gæti stafað af því að ég vann með alveg einstöku teymi áður en ég tók við núverandi stöðu, en það að ég eyði ennþá kvöldum í að lesa hackernews og langchain documentation er kannski ákveðið merki líka.

Það eru aftur á móti nokkrir hlutir sem ég hef virkilega notið og veit að munu reynast vel í framtíðinni:

Ég hef virkilega notið þess að vinna með öllum teymum fyrirtækisins. Það er ótrúlegt hvað það gefur aðra sýn á að vinna með fólki. Hæfileikar sem geta verið mikið metnir innan teymis eru ekki endilega þeir sem skipta máli þegar kemur að því að vinna þvert á teymi.

Ég hef lært hversu nauðsynlegt það er að treysta fólki til að leysa vandamál í stað þess að segja þeim hvernig eigi að gera það. Þó þú haldir að þú sért ekki að gera það þá má oft fara einu skrefi ofar - í stað þess að segja “við þurfum að gera X til að bæta upplifun á Y” byrja heldur á “hvernig tryggjum við góða upplifun þegar kemur að Y” og vinna með fólki.

Það hefur verið frábært að tala við raunverulega notendur, fá innsýn inn í hegðun þeirra og hugsun, samhliða því að skoða töluleg gögn um notendahegðun. Oft skipta vandamálin sem þú heldur að skipti mestu máli ekki jafnmiklu og þú heldur og verstu vandamálin eru þau sem hafa áhrif á notendur en þú veist ekki af. Það hefur komið á óvart hversu viljugt fólk er að gefa af tíma sínum og veita endurgjöf á þjónustu. Það er svo aftur á móti mikilvægt að það sé hlustað á það og sömu hindranir ekki til staðar mánuðum seinna.

Það hefur verið áhugavert að fá innsýn inn í sölu og samningahliðina, en þar er mun meiri vinna en mig hefði grunað. Það skiptir máli að byggja sambönd, hvort sem það er innan teymis eða milli samvinnuaðila því raunin er sú að þú ert líklegri til að bregðast jákvætt við fyrirspurnum vinar/kunningja en aðila úti í bæ.

Ég gæti talað meira um öll þessi efni og fleiri en aðallega hef fengið meiri innsýn og öðlas meiri virðingu fyrir þeirri fjölbreyttu vinnu sem snýst að vöruþróun, sölu og þjónustu.

Updated: